top of page

Spennandi að stofna fyrirtæki sextug


Elín Sigrún Jónsdóttir er lögfræðingur og stóð frammi fyrir þeirri staðreynd að vera orðin sextug og vantaði vinnu. Hún vissi sem var að atvinnurekendur biðu ekki í röðum eftir konu á þeim aldri. Eftir nokkrar vangaveltur sá Elín að hún byggi sjálf yfir nægri reynslu, getu og ástríðu til að stofna sitt eigið fyrirtæki. BÚUM VEL er ekki fasteignasala heldur sérhæfð lögfræðiþjónusta vegna búsetuskipta. Hún veitir margþætta ráðgjöf á sviði erfðamála og búsetubreytinga en þar hefur hún mikla reynslu. Nú er Elín til dæmis að kynna sér mjög vel alla búsetukosti sem eru í boði fyrir fólk á miðjum aldri og yfir.

Kaflaskilin í lífinu Kaflaskil urðu í lífi Elínar í upphafi árs þegar hún varð að hætta störfum á vinnustað sem hún stjórnaði í sex ár sem var  Útfararstofa Kirkjugarðanna. Sökum myglu í húsnæðinu var heilsa Elínar að bresta og það var ekkert í stöðunni annað en að fara, þrátt fyrir að húsnæðið væri gert upp og allt gert sem unnt var. Í starfi sínu í útfararþjónustunni kynntist Elín vel stöðu fólks sem var lent í aðstæðum sem það þekkti ekki. “Sem betur fer kaupir fólk útfararþjónustu sjaldan um ævina og er því hjálpar þurfi þegar að því kemur,” segir Elín. “Svipað á við þegar fólk ætlar að skipta um húsnæði. Við förum sjaldan í gegnum það ferli og erum því í þörf fyrir leiðbeiningar og þar kem ég að málum.”

Handritið kom til mín Þegar Elín hafði náð heilsu, fór hún í göngutúr og spurði sig spurninga á borð við; Hvað get ég? Hvað kann ég? Og hvar liggur ástríða mín? Og svarið kom. Það var reynsla af þjónustu við tvenn hjón á síðasta ári, sem svaraði spurningunni. “Annars vegar voru þetta hjón á sjötugsaldri sem seldu einbýlishús þar sem þau höfðu búið í 30 ár og voru að kaupa sér glæsilega íbúð í nýbyggingu og hins vegar voru það eldri hjónin sem voru að selja fallega sérhæð og kaupa sig inn á hjúkrunarheimili.“ Í báðum þessum tilvikum sá ég hvað þörfin var mikil fyrir þjónustu af þessu tagi. Þau eru nú á draumastað miðað við aðstæður eins og þær eru í dag. Þau treystu mér fyrir efa og óöryggi sínu og vildu að ég aðstoðaði þau. Ég gerði mér grein fyrir því að með reynslu mína og þekkingu gæti ég komið til móts við þarfir fólks við búsetuskipti. Ég er núna að vinna við það sem mig langar helst að gera og nýti alla reynslu sem ég hef viðað að mér um ævina og þegar allt þetta kom saman gat ég ekki annað en nýtt það og stofnað mitt eigið fyrirtæki,” segir Elín og er alsæl með að hafa tekið skrefið og upplifir að reynsla, þekking og ástríða hennar sameinast eins og falleg þykk flétta með verkefnum fyrirtækisins.

Að láta drauma rætast Neytendamál hafa alltaf verið Elínu hugleikin en hún var fyrsti forstöðumaður Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna, sem nú er Umboðsmaður skuldara. “Hópurinn sem ég er að horfa til, sem er minn aldur eða 60+, er oft búinn að búa mjög lengi í eign sinni og eins og við vitum eykst óöryggi með aldrinum. Það er stundum gott að hafa með sér fagaðila í ferlinu. Reynsla mín er að óöryggið er það sem allir eiga sameiginlegt enda ekki skrýtið. Og svo þegar allt er um garð gengið segja of margir: “Ég vildi að ég hefði gert þetta fyrir 10 árum”. Fólk er ekki endilega að minnka við sig heldur eru margir að láta drauma rætast. Sumir vilja fara í fjölbýli þar sem ekki er lóð til að sjá um en aðrir vilja láta drauminn um lítið hús rætast, þar sem eru ræktunarmöguleikar eða nánd við náttúruna. Og þá er auðvitað synd að hafa beðið þangað til líkamlegt ástand býður ekki lengur upp á að fólk geti notið þess sem nýjar aðstæður veita.”

Viðskiptavinir njóta viðskiptavildar Elínar „Viðskiptavinir mínir fá að njóta þeirrar viðskiptavildar sem ég hef aflað mér í gegnum tíðina.” Elín hefur haft samning við tvær fasteignasölur, þ.e. Eignamiðlun, þar sem hún starfaði fyrir þrjátíu árum, og fasteignasöluna Torg í Garðabæ. “Fólkið sem ég þjóna borgar minna í sölulaun og mismunurinn er mín þóknun. Fasteignasölurnar eru reiðubúnar að veita seljendum þennan afslátt af því menn gera sér grein fyrir hvað aukin þjónusta gerir mikið gagn.“

Aðstoð við uppgjör dánarbúa Auk almennrar lögmannsþjónustu býður Elín fram aðstoð við að ganga frá uppgjöri dánarbúa og nefnir nýlegt dæmi þar sem einhleyp og barnlaus kona hafði arfleitt ellefu aðila að eigum sínum. “Hún hafði alltaf gefið tíund af tekjum sínum til góðgerðarmála og hún arfleiddi þessi líknar- og styrktarfélög að eigum sínum. Nú er ég að sjá um að selja fasteign hennar og sjá til þess að ágóðinn fari þangað sem hún óskaði. Þetta er svo falleg saga og er andstæðan við fyrsta dánarbúið sem ég vann fyrir þegar ég var ungur lögmaður. Það var bú stóreignamanns sem hafði ekki gifst eða eignast börn en hafði átt sambýliskonu síðustu árin. Hinn látni hafði alltaf farið vel með peninga en af því hann hafði ekki gert erfðaskrá voru 79 erfingjar þegar upp var staðið. Fæst þeirra vissu nokkuð um þennan frænda sinn og höfðu ekki verið í sambandi við hann. Og af því hann hafði ekki gert erfðaskrá fengu erfingjar allt en ekki konan sem hafði hugsað svo fallega um hann síðustu tíu árin. Þetta eru tvær sögur sem má draga lærdóm af,” segir Elín að lokum. Sjá nánari upplýsingar hér um fyrirtækið hennar Búum vel.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.


Comments


bottom of page